jsb_logo

Um JSB

shape
  • Síðan 1967

  • shape
Síðan 1967

Saga JSB

Jazzballettskóli Báru var formlega stofnaður árið 1967 í Suðurveri við Kringlumýrarbraut í Reykjavík og hefur starfað óslitið síðan. Stofnandi skólans og fyrsti kennari var Bára Magnúsdóttir. Bára lærði í Ballettskóla Þjóðleikhússins sem barn en hélt utan til Englands á unglingsárum til frekara dansnáms við sviðslistaskólann ArtsEd – Arts Educational School í London.

Í Englandi kynntist hún nýjum straumum og stefnum í listdansi þar sem hún heillaðist af jazzballettinum og Broadway söngleikjum á West End. Árið 1965 snéri Bára heim full af eldmóði. Hún reyndi fyrir sér sem dansari eftir heimkomuna og tók þátt í ýmsum sýningum. Samhliða sýningarstörfum stóð hún fyrir námskeiðum í jazzballett fyrir börn og unglinga. Námskeiðin spurðust út og nutu fljótt mikilla vinsælda. Greinilegt var að íslenska æsku þyrsti í nýjungar á sviði tómstunda og lista. Námskeiðahaldið varð sá hvati sem lá að baki stofnunar skólans.

Mikið kynningarstarf fór í hönd og skólinn stóð fyrir fjölda nemendasýninga. Stofnaður var Dansflokkur JSB sem sýndi víðs vegar um borgina og fór auk þess í sýningarferðalög um landið.

Með tilvist skólans varð til nýtt athvarf fyrir börn og unglinga til tómstunda og listsköpunar. Árið 1987 á tuttugusta starfsári skólans, var stofnaður atvinnudansflokkurinn Íslenski jazzballettflokkurinn. Starfaði hann í tvö ár og setti upp fimm sýningar eftir íslenska og erlenda danshöfunda. Sótt var um fjárveitingu fyrir flokkinn, en hún fékkst ekki og því var ekki unnt að halda starfseminni áfram. Tveir af 14 dönsurum flokksins störfuðu áfram við vinnu í erlendum dansflokkum og nokkrir tóku til starfa við kennslu. Með árunum hafa orðið til góðir dansarar hérlendis og er óhætt að fullyrða að íslensk listdanssköpun sé runnin undan rifjum okkar eigin menningar. Áhrifin má sjá víða í félagsstarfi grunn- og framhaldsskólanema, þar sem frjáls danssköpun skipar stóran sess, mikill sjónarsviptir væri af ef hennar nyti ekki við.

Hlutverk JSB

Hlutverk skólans felst í að bjóða vandað listdansnám fyrir börn og unglinga í takt við kröfur samtímans. Starfshættir skólans mótast af síbreytilegum heimi listdansins og er metnaður og alúð lögð í skólastarfið. Leitast er við að mæta þörfum nemenda af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð. Boðið er upp á listdansnám sniðið að ólíkum þörfum nemenda.

Forskólanámið er fyrir nemendur á leikskólaaldri. Þar fá nemendur að kynnast listforminu í gegnum dans og leik.

Jazzballettnámið er tómstundamiðað og sniðið að hinum almenna nemanda.

Nám á listdansbraut er fyrir þá sem vilja sérhæfa sig og ná lengra í danslistinni.

Allar námsleiðir stuðla að listrænum þroska, aukinni líkamsvitund, félagsfærni, velferð og hreysti. Námið hvetur til skapandi hugsunar, eflir sjálfstæði og sjálfstraust og veitir þar af leiðandi dýrmætt veganesti út í lífið.

Foreldrafélag JSB

Skólaárið 2025-2026
  • Helen Breiðfjörð
  • Kristín Ólafsdóttir
  • Lilja Helgadóttir
  • Stjórn skólans

  • Þórdís Schram, skólastjóri JSB & fagstjóri Listdansbrautar JSB – [email protected]
  • Bára Magnúsdóttir, eigandi JSB – [email protected]
  • Anna Norðdahl, starfsmannastjóri & bókari – [email protected]
  • Helga Hlín Stefánsdóttir, umsjónarmaður skráningar & greiðslu – [email protected]
  • Rebekka Sól Þórarinsdóttir, viðburðastjóri - [email protected]