jsb_logo

Jazzballettnám JSB

Jazzballettnám JSB

Nám í jazzballettskólanum

Kennslufyrirkomulag

Skólaárinu er skipt í haustönn og vorönn. Tímabilið miðast við skiptingu anna í grunn- og framhaldsskólum. Kennsla fer fram síðdegis, á kvöldin og um helgar, þ.e. eftir hefðbundinn skólatíma.

Niðurröðun í hópa

Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Nemendur eru teknir inn frá 6 ára aldri.

Jazzballettnám er fyrir alla

Danslistarskóli JSB sérhæfir sig í jazzballett. Jazzballettnám er vinsælt og fjölbreytt dansnám sem hefur þróast á hátt í 60 ára starfsferli skólans. Jazzballettnám er tómstundamiðað og við allra hæfi. Kennt er í 2-3 kennslustundir á viku, 60–75 mínútur í senn. Megináhersla er lögð á jazzdans, alhliða líkamsþjálfun og danstækni, bæði jazz- og klassíska danstækni.

Námslýsing 

Nemendur, jafnt stelpur sem strákar, eru teknir inn í jazzballettskólann frá 6 ára aldri. Engin sérstök inntökuskilyrði eru í jazzballettnámið. Kennslustundir eru 2x í viku, 60 mínútur í senn. Kennsluefni miðast við aldur og þroska nemenda. Framhaldsnemendur geta bætt við sig valtíma í nútímadansi eða tækni. Æfingar eru þá 3x í viku, 2×60 mínútur í jazzballett og 1×60 mínútur í nútímadansi/tækni.

Dansþjálfunin

Eftirfarandi þættir liggja til grundvallar dansþjálfuninni:

  • Samhæfing líkamshreyfinga
  • Jazz- og nútímadanstækni (blönduð tækni)
  • Klassískur ballett (grunnþjálfun – Vaganova kerfi)
  • Styrktar-og liðleikaþjálfun
  • Mismunandi jazzdansstílar
  • Dansspuni og leikræn tjáning
  • Tónskynjun og túlkun hreyfinga við tónlist
  • Dansverkefni byggð á ofangreindum þáttum
  • Nemendur taka þátt í nemendasýningum skólans í Borgarleikhúsinu 
Markmið kennslu og hæfniviðmið

Í jazzballettnámi er lögð áhersla á dansgleði. Nemendur eru hvattir til dáða og örvaðir til framfara. Nemendur stunda námið á eigin forsendum, sér til ánægju. Árangursmarkmið eru einstaklingsbundin, miðuð við aldur og þroska nemandans. Það er ákveðinn stígandi og uppbygging í náminu. Engin próf eru í jazzballettnáminu en kennarar skólans vinna markvisst að því að nemendur nái eftirfarandi hæfniviðmiðum.

Hæfniviðmið fyrir jazzballettnám

Nemandi getur:

  • Beitt líkama sínum af öryggi í dansi og hreyfingu, sjálfum sér til ánægju
  • Notað þekkingu sína og tæknilega færni í jazzdansi
  • Beitt sér rétt útfrá líkams- og danstækniæfingum og stuðlað þannig að eigin hreysti og velferð
  • Tjáð og túlkað tilfinningar í gegnum dans og leikræna tjáningu
  • Samhæft mismunandi tónlist, hreyfingar og dansstíla
  • Dansað í hóp eftir fyrirskipuðu mynstri og formi
  • Skynjað umhverfi sitt og rými í hreyfingu
  • Dansað á leiksviði og tekið virkan þátt í samstarfi og undirbúingsvinnu vegna sýningar
Sýningar og viðburðir

Hluti af skipulagi námsins er uppsetning danssýninga og þátttaka í fjölbreyttum listviðburðum. Í lok hverrar annar eru haldnar formlegar og óformlegar sýningar þar sem nemendur fá þjálfun í miðlun og sviðsframkomu. Opið hús er fastur liður í desember þar sem nemendur bjóða vinum, vandamönnum og öðrum áhugasömum í heimsókn í kennslustund. Veitt er innsýn í dansnámið og verkefni nemenda á opnu húsi. Á skólaárinu taka nemendur þátt listahátíðum fyrir börn og unglinga s.s. í Unglist (16-25 ára), Barnamenningarhátíð og öðrum tilfallandi viðburðum. Allir nemendur taka þátt í viðamikilli nemendasýningu í Borgarleikhúsinu á hverju vori. Í gegnum undirbúningsvinnu sýningar og viðburðatengd verkefni fá nemendur ómetanlega þjáflun í sviðsframkomu, tjáningu, samstarfi og félagslegri færni svo fátt eitt sé nefnt.